Ferill 28. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 28 . mál.


Ed.

545. Breytingartillögur



við frv. til laga um mannanöfn.

Frá menntamálanefnd.



     Við 2. gr. Greinin orðist svo:
                   Eiginnafn skal vera íslenskt eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Það má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Eiginnafn má ekki heldur vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
                   Hvorki má gefa stúlku karlmannsnafn né dreng kvenmannsnafn.
                   Óheimilt er að gefa barni ættarnafn sem eiginnafn nema hefð sé fyrir því nafni.
     Við 3. gr. Greinin orðist svo:
                   Mannanafnanefnd, skv. 17. gr., skal til viðmiðunar við nafngjafir semja skrá um þau eiginnöfn sem heimil teljast skv. 2. gr. og er hún nefnd mannanafnaskrá í lögum þessum. Hagstofa Íslands gefur skrána út, kynnir hana og gerir aðgengilega almenningi og sendir hana öllum sóknarprestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga. Skrána skal endurskoða eftir því sem þörf er á en hún skal gefin út í heild eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
     Við 5. gr. Síðari málsliður 1. mgr. orðist svo: Sé nafn, sem barn á að hljóta, ekki á mannanafnaskrá skal prestur eða forstöðumaður trúfélags ekki samþykkja það að svo stöddu né gefa það við skírn heldur skal málið borið undir mannanafnanefnd.
     Við 6. gr. Eftir 1. málsl. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Úrskurðir skulu kveðnir upp svo fljótt sem við verður komið og ekki síðar en innan tveggja vikna frá því mál barst nefndinni.
     Við 8. gr. 2. mgr. orðist svo:
                   Sé annað foreldri barns erlendur ríkisborgari eða hafi verið það er heimilt að barninu sé gefið erlent nafn sem annað tveggja eiginnafna. Heimild þessi er háð þeim skilyrðum að hið íslenska eiginnafn barnsins fullnægi ákvæðum 2. gr. og að unnt sé að sýna fram á að hið erlenda nafn sé gjaldgengt í heimalandi hins erlenda foreldris þess.
     Við 12. gr. Í stað orðanna „móðurafa síns“ í fyrri málslið 1. mgr. komi: föður hennar. Í stað orðanna „stjúpföður síns“ í fyrri málslið 2. mgr. komi: stjúpforeldris. Í stað orðsins „kynföður“ í síðari málslið 2. mgr. komi: kynforeldris. Í stað orðsins „stjúpföður“ í 4. mgr. komi: stjúpforeldris.
     Við 23. gr. Fyrri málsgrein orðist svo:
                   Sé barni ekki gefið nafn innan þess tíma sem um getur í 2. mgr. 4. gr. skal Þjóðskrá vekja athygli forsjármanna barnsins á þessu ákvæði laganna og skora á þá að gefa barninu nafn án tafar. Sinni forsjármenn ekki þessari áskorun innan eins mánaðar og tilgreini ekki gildar ástæður fyrir drætti á nafngjöf skal Þjóðskrá tilkynna það dómsmálaráðherra. Heimilt er ráðherra, að undangenginni skriflegri áskorun, að leggja dagsektir á forsjármenn barns og falla þær á þar til barni er gefið nafn. Dagsektir renna í ríkissjóð og má gera aðför til fullnustu þeirra.
     Við 24. gr. Greinin orðist svo:
                   Dómsmálaráðherra fer með mál er varða mannanöfn og er honum heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd þessara laga.
Við ákvæði til bráðabirgða I. Ákvæðið orðist svo:
                   Dómsmálaráðherra skal þegar eftir birtingu laga þessara leita eftir tilnefningum í mannanafnanefnd og skipa hana innan eins mánaðar. Nefndin skal þá þegar hefjast handa við að undirbúa starfsemi sína og framkvæmd laganna.